top of page
Beiðni um miðlun upplýsinga til tengiliðar/málstjóra

Miðlun upplýsinga til tengiliðar

Ef þjónustuveitandi eða sá sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barns tekur eftir og greinir vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti og að barnið þurfi frekari þjónustu en þegar er veitt skal hann veita foreldrum og/eða barni leiðbeiningar um samþættingu þjónustu.

Ef foreldri og/eða barn setur fram beiðni þar að lútandi getur þjónustuveitandi eða sá sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barna skráð og/eða tekið saman upplýsingar um aðstæður barns sem varpa ljósi á vísbendingar og þjónustuþörf og miðlað þeim til tengiliðar eða málstjóra þjónustu í þágu farsældar barns.

Þegar upplýsingar berast til tengiliðar eða málstjóra þjónustu frá þjónustuveitanda eða þeim sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barna er honum heimilt að vinna upplýsingar um aðstæður barnsins. Hann skal eins fljótt og unnt er hafa samband við foreldra og/eða barn og bjóða samþættingu þjónustu skv. V. kafla laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021.

Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Foreldrar og/eða barn lýsa því yfir með undirskrift sinni að þjónustuveitandi eða sá sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barns sé heimilt að skrá og/eða taka saman persónuupplýsingar um aðstæður barns og miðla þeim til tengiliðar eða málstjóra í þágu farsældar barna, sem heimilt er að vinna upplýsingarnar nánar.

Þjónustuveitandi eða sá sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barns safnar framangreindum persónuupplýsingum í þeim tilgangi að meta þörf á samþættingu þjónustu samkvæmt V. kafla laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barns. Heimild til vinnslu framangreindra persónuupplýsinga grundvallast á lagaheimild, skv. 3. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og er lagaheimild til vinnslunnar að finna í 23. gr. laga nr. 86/2021.

Þjónustuveitendur og þeir sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga um upplýsingar sem þeir hafa orðið áskynja um vegna verkefna samkvæmt þessum kafla og V. kafla.

Einstaklingar sem leggja fram beiðni samkvæmt framangreindu geta hvenær sem er dregið beiðni sína til baka. Hafi miðlun upplýsinga til tengiliðar þegar átt sér stað felur afturköllun eingöngu í sér að heimild tengiliðar til vinnslu persónuupplýsinganna fellur niður. Erindi um afturköllun samþykkis skal berast til viðkomandi þjónustveitanda eða þeirra sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barna. Þegar aðstæður barns breytast, t.d. það færist milli skólastiga eða flyst í annað sveitarfélag, ber fyrri tengilið að sjá til þess að nýr tengiliður fái nauðsynlegar upplýsingar um aðstæður barnsins.

Ábyrgðaraðili vinnslunnar er Litla Kvíðameðferðarstöðin. Beiðni um vinnslu samkvæmt þessari grein felur ekki í sér beiðni um samþættingu þjónustu, eingöngu miðlun upplýsinga til tengiliðar.

Skýringar

Upplýsingar um aðstæður barns:

Vinnsla upplýsinga um aðstæður barnsins er heimil hjá tengiliðum, málstjórum, þjónustuveitendum og þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns við framkvæmd verkefna. Með vinnslu persónuupplýsinga er m.a. átt við söfnun, skráningu, varðveislu, miðlun og samkeyrslu upplýsinga um aðstæður barns, þ.m.t. viðkvæmar persónuupplýsingar og upplýsingar um refsiverða háttsemi og ætlaða refsiverða háttsemi. Gæta ber að meðalhófi við vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli laga þessara og skal ekki vinna með persónuupplýsingar umfram það sem nauðsynlegt má telja í hverju einstöku tilviki í þágu tilgangsins.

Þjónustuveitandi:

Sá sem veitir farsældarþjónustu á vegum ríkis eða sveitarfélags og/eða einkaaðili sem veitir samskonar þjónustu á grundvelli þjónustusamnings. Til þjónustuveitenda teljast t.d. leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, framhaldsskólar, heilsugæsla, sérhæfð heilbrigðisþjónusta, lögregla, félagsþjónusta og barnavernd.

Almenn þjónusta:

Allt skipulagt starf sem er á vegum annarra en þjónustuveitenda. Sjálfstætt starfandi sérfræðingar, íþrótta-, lista- og æskulýðsstarf, frjáls félaga- og hagsmunasamtök.

Tengiliður:

Frá fæðingu og þar til barn hefur nám í leik- eða grunnskóla er tengiliður starfsmaður heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar í heilbrigðisumdæmi barns. Sama á við ef þörf er á samþættingu þjónustu á meðgöngu. Þegar barn er við nám í leik-, grunn- eða framhaldsskóla er tengiliður starfsmaður skólans þar sem barn er við nám. Hlutverk tengiliðar er að veita upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns. Tryggja aðgang að frummati og styðja við samþættingu þjónustu allra þjónustuveitenda. Fylgja eftir beiðni foreldra/barns um samþættingu þjónustu á öðru og þriðja stigi.

Málstjóri:

Sá sem leiðir samþættingu þjónustu í þágu farsældar barns sem hefur þörf fyrir annars eða þriðja stigs þjónustu. Málstjóri hefur hagsmuni barns að leiðarljósi. Hlutverk málstjóra er að veita ráðgjöf og upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns. Aðstoða við að tryggja aðgang að mati og/eða greiningu á þörfum barns. Bera ábyrgð á gerð stuðningsáætlunar og að stýra stuðningsteymi. Fylgja því eftir að þjónusta sé veitt í samræmi við stuðningsáætlun. Veita þeim sem sitja í stuðningsteymi ráðgjöf og upplýsingar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barns.

bottom of page