Hópmeðferð
Hópmeðferðarúrræði Litlu KMS eru sérhæfð meðferðarúrræði. Til þess að skrá barn eða ungmenni í hópmeðferð þarf að óska eftir greiningarviðtali hjá sálfræðingi á Litlu KMS eða biðja annan meðferðaraðila að senda tilvísun í hópinn.
Skjólstæðingar í hópmeðferð eru með klínískan vanda á borð við félagskvíðaröskun, þráhyggju- árátturöskun, almenna kvíðaröskun, þunglyndi, einkenni jaðarpersónuleikaröskunar o.s.frv.
Hóparnir eru litlir ( 5-12 þátttakendur), þeir eru lokaðir og þeim er stýrt af tveimur meðferðaraðilum.
Að hópmeðferð lokinni stendur öllum þátttakendum til boða að sækja Félagsmiðstöð Litlu KMS sem eru opnir eftirfylgdartímar.
Til þess að skrá sig í hópmeðferðarúrræði er hægt að smella á hnappinn skrá á námskeið hér til hliðar. Haft verður samband í kjölfarið til þess að gefa tíma í greiningarviðtal fyrir námskeiðið nema tilkomi einnig tilvísun frá öðrum fagaðila sem metur að úrræðið eigi við. Slíka tilvísun má senda á netfangið litlakms@litlakms.is
Kostir við hópmeðferð
Flest börn / ungmenni vilja síður fá meðferð innan um aðra á sama aldri en reynsla okkar er sú að þeir sem mæta í hópmeðferðina lýsa miklum létti og ánægju með að komast að því að fleiri séu að glíma við sama vandamál.
Við verðum vör við að skömm hjá skjólstæðingum minnkar.
Þátttakendur læra mikið af öðrum í hópnum.
Við sjáum yfirleitt stígandi í þátttöku meðal allra í hópnum þar sem hópurinn virkar hvetjandi á þátttakendur að gera breytinar í eigin lífi.
Hópmeðferð er mun ódýrari kostur en einstaklingsviðtöl. Nýta má frístundastyrk sveitarfélaga fyrir þátttakendur undir 18 ára.
Hópmeðferð gefur möguleika á að æfa ákveðna færni í lokuðum hóp meðal jafningja sem öll þekkja vandann á eigin skinni og sýna mikinn skilning og samhug.
Taktu pláss!
Félagskvíði er eðlileg tilfinning sem margir upplifa bæði í samskiptum við aðra og eins þegar athygli annarra beinist að okkur. Þessi hópmeðferð er ætluð unglingum og ungu fólki sem upplifir hamlandi kvíða og óöryggi í samskiptum og félagslegum aðstæðum. Lesa meira...
Haust 2024:
13-15 ára og 16-20 ára: tímasetningar eru háðar skráningarfjölda hverju sinni. Hægt að skrá sig á lista. (Hópar eru alla jafna keyrðir miðvikudaga-laugardags).
Fjögurra daga meðferð við áráttuþráhyggju (ÞÁR / OCD)
Næsti hópur er áætlaður í lok september/byrjun október 2024
Þráhyggja er óþægileg hugsun, ímynd eða þörf/hvöt sem vekur óþægindi/óhug. Árátta er sú hegðun sem við notum til að bregðast við þráhyggjunni til þess að slá á vanlíðan. Vægar og einfaldar rútínur eru eðlilegar meðal barna og unglinga, en þegar þær festast í sessi og fara a dreifa úr sér eða þegar mikil vanlíðan kemur fram þegar áráttur eru hindraðar er ástæða til þess að fá nánara mat á vandanum.
Þessi meðferð er ný á Íslandi og við erum afar stolt af því að geta boðið uppá hana... Lesa meira...
Tilfinningastjórn, samskiptafærni og streituþol (Díalektísk atferlismeðferð)
Meðferðin byggir á díalektískri atferlismeðferð (DAM) sem á ensku kallast dialectical behavioral therapy (DBT).
Þessi meðferð er fyrir þá sem þurfa meira en hefðundna hugræna atferlismeðferð (HAM). Unnið er með yfirþyrmandi tilfinningavanda þar sem skjólstæðingar grípa yfirleitt til skaðlegrar hegðunar sem viðbrögð við vanlíðan. Dæmi um slíka hegðun er sjálfsskaði, sjálfsvígstilburðir, svelti, ofát, mikil peningaeyðsla, fíkniefna eða áfengisneysla. Yfirleitt er líka um að ræða mikinn samskiptavanda við jafnaldra og fjölskyldu. Lesa meira...
Næsti hópur fyrir fullorðna hefst 2. október 2024
(miðvikudagar 15-17).
HAM fyrir unglinga (8.-10. bekkur)
Stutt hópmeðferð fyrir unglinga sem glíma við vægan kvíða, depurð eða þunglyndi.
Meðferðin byggir á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM).
Tímasetningar eru háðar skráningarfjölda hverju sinni. Hægt að skrá sig á lista. (Hópar eru alla jafna keyrðir miðvikudaga-laugardags).
Sjálfsöryggi og kvíðastjórn fyrir námsmenn.
Flestir námsmenn finna fyrir einhverjum kvíða og óöryggi í kringum próf og mikilvæg verkefni. Þetta námskeið er fyrir námsmenn sem fresta verkefnum og prófum í sífellu. Einnig er unnið með fullkomnunaráráttu og lágt sjálfsmat í námi.
Félagsmiðstöð Litlu KMS
Þriðjudagar 16.00-17.30
Smellið fyrir nánari dagsetningar
Opnir eftirfylgdartímar. Nemar á lokaári í sálfræði við HR/HÍ taka á móti fyrirspurnum og leggja til hugmyndir að frekari áskorunum fyrir þá sem vilja meira aðhald að lokinni hópmeðferð á Litlu KMS.
Engin skráning, þú mætir bara og þetta kostar ekkert.