top of page

Tímasetning næsta námskeiðs fylgir eftirspurn.

Ef áhugi er fyrir hendi er best að senda tölvupóst á litlakms@litlakms.is

og óska eftir því að vera settur niður á lista.

Frammistöðukvíði fyrir mót og keppnir er eðlileg og heilbrigð tilfinning og oft hjálpleg. Hann birtist t.d. í vægum magaverkjum, svita og auknum hjartslætti rétt fyrir mótið. Einnig er eðlilegt að barn sé aðeins lengur að sofna kvöldið fyrir mót og hafi einhverjar áhyggjur af frammistöðu sinni sem líða fljótt hjá þegar mótið er hafið.

Þetta námskeið er fyrir börn sem upplifa hamlandi kvíða á æfingum og einnig í aðdraganda móta og á keppnum. Þessi kvíði birtist bæði í áhyggjum af frammistöðu og talsvert sterkari líkamlegum einkennum.

 

Kvíði þessara barna veldur því jafnvel að þau forðast að mæta á keppnir eða æfingar eða hætta jafnvel í íþrótt þrátt fyrir að langa að æfa áfram.

Slíkur kvíði birtist m.a. í eftirfarandi einkennum:

  • Síendurteknum áhyggjum af frammistöðu á æfingum/keppnum.

  • Erfiðleikum við að hugsa raunhæft um eigin getu sem og annarra í íþróttinni.

  • Tilhneigingu til fullkomnunaráráttu og ofurábyrgðar á gengi liðsins í hópíþróttum.

  • Gráti, pirringi og reiði í tengslum við frammistöðu.

  • Ósveigjanleika í kröfum á eigin frammistöðu (og stundum annarra).

  • Meiri svefntruflunum en eðlilegt telst.

  • Magaverkjum, höfuðverkjum, öndunarþrengslum o.fl. líkamlegum einkennum í tengslum við kvíðavekjandi aðstæður.

  • Tilhneigingu til forðunar eða mikillar vanlíðunar í aðstæðum.

  • Frammistöðu ítrekað langt undir getu á keppnum.

Námskeiðið verður haldið hjá Litlu Kvíðameðferðarstöðinni. Steinunn Anna og Kristján Gunnar sálfræðingar stýra námskeiðinu. Steinunn hefur mikla reynslu af vinnu með frammistöðukvíða hjá börnum og unglingum. Hún er með bakgrunn úr tónlistar- og kórstarfi og á barn sem hefur keppt mikið erlendis og hérlendis. Kristján Gunnar hefur áralanga reynslu af íþróttastarfi í gegnum fótboltaiðkun og spilaði sjálfur upp yngri flokka og með meistaraflokki í fótbolta ásamt því að koma að þjálfun barna, unglinga og fullorðinna.

Námskeiðið byggist á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar og núvitundar og verður alls 8 klst. Það er ætlað fyrir 10-15 ára börn sem stunda hóp- eða einstaklingsíþróttir og vilja geta æft með heilbrigðu hugarfari og uppbyggilegu keppnisskapi.

4 skipti

Verð X kr. (hressing innifalin).

Hámarksfjöldi 12 börn.

Til þess að skrá sig á námskeið hjá Litlu Kvíðameðferðarstöðinni þarf að byrja á að óska eftir greiningarviðtali. Hægt er að panta greiningarviðtal á www.kms.is (panta tíma) eða á netfanginu litlakms@litlakms.is. Við mælum með því að þú skrifir í lýsingu eða skilaboð að þú sért að velta fyrir þér þessu námskeiði þar sem námskeið kunna að fyllast.

Greiningarviðtal kostar 18.900 kr. og er ekki innifalið í námskeiðsverði. Hægt er að óska eftir að nemi taki greiningarviðtal og kostar það þá 9.450. Nemar á Litlu KMS eru á lokaári í klínískri sálfræði við HÍ eða HR og eru fullfærir til þess að taka slíkt viðtal.

Greiningarviðtal er til þess að fara yfir vanda barns/ungmennis og meta þjónustuþörf og hvort tiltekið námskeið henti best eða hvort önnur úrræði séu vænlegri til árangurs. Í slíkum tilvikum ráðleggjum við ýmist einstaklingsviðtöl, önnur námskeið eða vísum málum áfram á aðra meðferðaraðila eða stofnanir sem við teljum að séu með úrræði sem henti betur.

Ef tilvísun berst frá öðrum sálfræðingi, barnalækni/geðlækni eða sambærilegum meðferðaraðila/stofnun kemur til greina að skrá beint á námskeið, þá er best að viðkomandi meðferðaraðili eða stofnun hafi samband á litlakms@litlakms.is eða í síma 571-6110.

Sjálfstraust í íþróttum

bottom of page